Íslenskt flugnám hefur lengi notið töluverðra vinsælda en fimm flugskólar eru starfræktir hér á landi í dag. Tveir stærstu flugskólarnir, Flugskóli Íslands og Flugakademía Keilis, hafa hins vegar undanfarið víkkað út starfsemi sína og eru farnir að bjóða upp á flugnám fyrir erlenda nemendur. Að sögn Baldvins Birgissonar, skólastjóra Flugskóla Íslands, hafa þeir boðið upp á nám fyrir erlenda nemendur um nokkurra ára bil.

„Sumir þeirra koma í umbreytingu á skírteinum,“ segir Baldvin. „Það eru nemendur sem hafa lært flug í Ameríku en vilja starfa í Evrópu og koma hingað til að breyta skírteinum sínum í evrópskar áritanir. Á hverju ári erum við með á bilinu 20 til 30 nemendur í slíku ferli.“

Íslenskir flugtímar með þeim ódýrustu

Flugskóli Íslands er með í kringum 150 nemendur í fjölbreyttu námi en til viðbótar við hefðbundið einkaog atvinnuflugnám er hægt að læra hjá þeim flugvirkjanám, flugumferðarstjóranám, flugkennaranám og margt fleira. Spurður að því af hverju flugnám á Íslandi sé eftirsóknarvert fyrir erlenda nemendur segir Baldvin að flugtímar á Íslandi séu með þeim ódýrustu í Evrópu. „Við erum sem betur fer laus við margar álögur sem eru algengar í Evrópu. Það er ein af ástæðunum fyrir því að Ísland nýtur vinsælda fyrir erlenda flugnemendur,“ segir Baldvin.

Nánar er fjallað um málið í Flugblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .