Íslenska fraktflugfélagið Sundt Atlanta Skybridge hefur hafið umfangsmikla fraktflutninga frá Noregi en gert er ráð fyrir að flugvélar félagsins fljúgi tvisvar í viku á milli Gardermoen flugvallar við Osló til New York og Miami með stoppi í Amsterdam á heimleiðinni. Félagið hefur gert samning við norsk flutningsfyrirtæki og mun meðal annars flytja laxaafurðir til Bandaríkjanna.

Talsvert hefur verið fjallað um félagið í norska flugheiminum. Sundt Atlanta Skybridge notar Boeing 747-230f í flutningum sínum sem tekur 105 tonn. Það var til þess tekið að aðeins tók um 15 mínútur að bóka 200 tonn eftir að opnað var fyrir viðskiptin að því er kemur fram á vef norskra flugmálayfirvalda, www.hangar.no .

Í íslenskri eigu

Sundt Atlanta Skybridge er í eigu Air Atlanta (45 prósent), Sundt Air (45 prósent) og AJ-Select Aviation Services (10 prósent). Hannes Hilmarsson, forstjóri Air Atlanta segir þetta ákveðið þróunarverkefni sem hafi verið í skoðun lengi. Markmiðið hafi verið að koma fraktvél í vinnu sem hefði annars verið verkefnalaus. Norðmennirnir hafi lagst í mikla vinnu undanfarna mánuði og nú sé bara að sjá hvað komi út úr verkefninu.

Félagið Marine Harvest var meðal fyrstu félaganna til að semja við Sundt Atlanta Skybridge en þeir segjast sjá fram á að ná verulegri hagræðingu með því að flytja fisk beint út með Sundt Atlanta Skybridge.

Uppfært kl. 13.20 - Ranglega var sagt í fréttinni að AJ-Select Atviation Service væri í eigu Arngríms Jóhannssonar. Félagið er í eigu norðmannsins Arild Jaabæk.