Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið TM Software, sem er hluti af Nýherjasamstæðunni, hefur selt tímaskráningar- og verkbókhaldskerfi sitt til 38 landa. Meðal kaupenda eru fjölmörg stórfyrirtæki og stofnanir. Til dæmis hefur kauphöllin í London og Deutsche bank keypt kerfið. Þá hafa kauphöllin í New York og örgjafaframleiðandinn Intel kerfið til reynslu.

Tímakskráningarkerfið nefnist Tempo og er viðbót við þjónustukerfi sem kallast JIRA og er frá ástralska hugbúnaðarfyrirtækinu Atlassian. Það gerir notendum þess kleift að tengja við tímaskráningar og koma í veg fyrir tvískráningar beiðna og reikninga.

Sala hugbúnaðarins hefur verið hröð en kerfið var upphaflega þróað til að nota innanhúss. Í fréttatilkynningu frá TM Software segir að ákveðið hafi verið að prófa að selja hugbúnaðinn í gegnum netið þegar verkefnum fækkaði á heimamarkaði.

„Árangurinn lét ekki á sér standa. Lausnin hefur fengið afar góða dóma hjá notendum og á fyrstu mánuðum prófuðu fyrirtæki á borð við Apple, Sony í Evrópu og bandaríski netrisinn America Online lausnina auk fyrirtækja hér á landi. Viðskiptavinir nú eru tæplega 200 talsins í 38 löndum,“ segir Ágúst Einarsson framkvæmdastjóri TM Software.

Ágúst segir að mestur áhugi sé frá fyrirtækjum í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu. „Við höfum einungis kynnt lausnina í gegnum netið og jákvæð viðbrögð hafa skilað sér í því að sala á Tempo hefur tvöfaldast á síðustu 2 mánuðum.“