„Engum blandast hugur um að íslenskt heilbrigðiskerfi er í kreppu. Fjórðungs niðurskurður fjárveitinga frá hruni kom ofan á áratuga aðhaldsaðgerðir. Úreltur tækjabúnaður og hálfónýt hús blasa við, en langmesta áhættan liggur í mannauðnum. Fólk flýr.“

Þannig hefst grein Einars Stefánssonar og Sigurðar Guðmundssonar í Morgunblaðinu í dag. Báðir eru læknar á Landspítala og prófessorar við Háskóla Íslands.

Í greininni segja þeir íslenskt heilbrigðiskerfi vera að molna niður. Þeir segja merki um að tíma íslenskrar heilbrigðisþjónustu í fremstu röð í heiminum vera að ljúka. Forskot okkar hafi falist í því að læknar hafi sótt sér menntun og þjálfun á bestu háskólasjúkrahúsum heims og síðan snúið aftur, reynslunni ríkari. Nú séu hins vegar merki um að þessi gæðauppspretta íslensku sjúkrahúsanna sé að þorna upp.