Íslenska hátæknifyrirtækið Stjörnu-Oddi í Garðabæ vinnur að þróun og hönnun sendis sem komið verður fyrir á hnúfubak á Íslandsmiðum . Áætlað er að merkja árlega 10-15 hnúfubaka og fylgjast með ferðum 30-40 dýra í N-Atlantshafi að jafnaði.

Þróun sendisins er leidd af Sigmari Guðbjörnssyni, forstjóra Stjörnu-Odda, en fyrirtækið er í fremstu röð í heiminum í merkingu dýra á sjó og landi. Svo dæmi sé tekið hefur Stjörnu-Oddi merkt karfa á 900 metra dýpi langt suðvestur af Íslandi og þegar hafa komið fram dýrmætar upplýsingar um ferðir karfa inn og út úr íslenskri lögsögu sem styðja að um íslenskan stofn sé að ræða. Þá notaði bandaríska geimferðastofnunin NASA tæki frá Stjörnu-Odda við rannsóknir á 10 kílómetra neðansjávarvatni á Suðurskautinu.