Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health hefur tryggt sér 20 milljón Bandaríkjadala fjármögnun, sem samsvarar um 2,8 milljörðum íslenskra króna, til þess að styðja við vöxt félagsins í Evrópu og Bandaríkjunum.

Sidekick þróar heilbrigðismeðferðir til að bæta heilsu fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma. Meðferðinni er miðlað í gegnum fjarheilbrigðiskerfi fyrirtækisins sem er skráð sem CE-merkt lækningatæki.

Viðskiptablaðið spjallaði við Tryggva Þorgeirsson forstjóra , og annan tveggja lækna sem stofnuðu félagið árið 2018 um hvernig lausn þess gæti hjálpað notendum sem glíma við ýmsa langvinna sjúkdóma eins og offitu, sykursýki og jafnvel hjarta- og æðasjúkdóma.

Fyrirtækið starfar einkum með alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum þar sem lausnin hefur verið samþætt lyfjameðferðum með góðum árangri að því er segir í tilkynningu, auk þess sem fyrirtækið vinnur með veitendum sjúkratrygginga.

„Það er stór áfangi fyrir Sidekick að fá til liðs við okkur reynda erlenda fjárfestingasjóði með djúpa sérþekkingu í okkar geira. Þetta er enn ein staðfestingin á því að þessi nálgun - að nýta tæknina til að miðla gagnreyndri heilbrigðismeðferð - er óðum að verða órjúfanlegur hluti af nútímaheilbrigðiskerfi,” segir Tryggvi Þorgeirsson, læknir og forstjóri Sidekick.

Stærsti sjóður sinnar tegundar í Evrópu meðal fjárfesta

Fjármögnunin var leidd af tveimur erlendum vísisjóðum, Wellington Partners sem er einn stærsti sjóður sinnar tegundar í Evrópu með um milljarð evra í stýringu og Asabys Partners en sá sjóður sérhæfir sig í fjárfestingum í líftækni- og heilbrigðistæknifyrirtækjum.

Núverandi fjárfestar, Novator og Frumtak Ventures, tóku einnig þátt fjármögnuninni, en báðir aðilar hafa stutt dyggilega við Sidekick síðustu ár auk Tækniþróunarsjóðs, sem skipti sköpum fyrir fyrstu skref félagsins.

Viðskiptablaðið sagði frá því að Frumtak hefði sett 170 milljónir í félagið árið 2017, en lausn þess er þar sögð geta aukið þyngdartap og dregið úr sykurneyslu notenda. Þar áður var sagt frá samningi félagsins við bandaríska heilsuræktarkeðju en síðar eða árið 2018 samdi félagið við Símann um að lausnin yrði hluti af vöruframboð félagsins.

„Það er frábært að sjá Sidekick ná þessum árangri og staðfestir trú okkar að félagið hafi það sem til þarf til að verða leiðandi á alþjóðavísu í stafrænum heilsutæknilausnum. Við hlökkum til samstarfsins við nýja fjárfesta á þeirri spennandi vegferð sem er framundan,” segir Svana Gunnarsdóttir, stjórnarformaður Sidekick og framkvæmdastjóri Frumtaks.

„Við höfum tekið þátt í uppbyggingu Sidekick frá upphafi og það er einstaklega ánægjulegt að fá reynda fagfjárfesta í stafræna heilbrigðisgeiranum til liðs við okkur,” segir Andri Sveinsson, meðeigandi í Novator.

Hyggjast opna í Evrópu og Bandaríkjunum og ferfalda starfsmannafjöldann

Fjármagnið verður nýtt til þess að styðja við öran vöxt Sidekick, opna sölu- og markaðsskrifstofur á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum og ferfalda starfsmannafjöldann á næstu misserum, en nú starfa rúmlega 30 manns hjá félaginu.

„Það hefur verið afar gefandi að sjá þau jákvæðu áhrif sem við höfum haft á heilsu og líðan fólks víða um heim. Teymið hefur byggt vöru sem telst með þeim bestu í heimi á sínu sviði og hefur leitt til samstarfs við ýmsa af stærstu aðilum á alþjóðlegum heilbrigðismarkaði,” segir Tryggvi.

„Það verður gífurlega spennandi að byggja ofan á þennan grunn með þessari viðbótarfjármögnun og til þess þurfum við að sækja afburðafólk með víðtæka reynslu á sviði heilbrigðismeðferðar og -rannsókna, hugbúnaðargerðar, hönnunar, heilbrigðisverkfræði og sölu- og markaðsmála til þess mæta eftirspurn frá nýjum og núverandi samstarfsaðilum."

Fyrr á þessu ári greindi Sidekick frá milljarðasamningi við alþjóðlega lyfjarisann Pfizer og seint á síðasta ári tilkynnti félagið um samstarfssamning við Bayer, eitt af stærstu lyfjafyrirtækjum heims. Áætlað er að tilkynna stóran samning við annað alþjóðlegt lyfjafyrirtæki á næstu mánuðum.

Hér á landi hefur Sidekick kerfið meðal annars verið nýtt  til að styðja við starf COVID-göngudeildar Landspítala, auk þess sem verið er að undirbúa samstarfsverkefni með hjarta- og krabbameinsdeildum Landspítala.

Glíma við sjúkdóma sem valda allt að 80% heilbrigðiskostnaðar

Sidekick var stofnað af tveimur læknum, þeim Tryggva Þorgeirssyni og Sæmundi Oddssyni, í þeim tilgangi að fyrirbyggja og meðhöndla lífsstílstengda sjúkdóma. Þeir töldu hefðbundnar aðferðir við lífsstílsbreytingar ekki duga til að sporna gegn mikilli aukningu í algengi langvinnra lífsstílstengdra sjúkdóma sem í dag valda 86% dauðsfalla og 70-80% heilbrigðiskostnaðar á Vesturlöndum.

Teymi sérfræðinga á heilbrigðissviði, í heilbrigðisverkfræði, hönnun og hugbúnaðargerð þróaði Sidekick-lausnina sem styður við meðferð fólks með ýmsa sjúkdóma svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki og bólgusjúkdóma.

Rannsóknir og sjúklingaprófanir hafa sýnt að með því að tvinna lausn fyrirtækisins við hefðbundna meðferð megi bæta ýmsar útkomur svo sem þyngdar- og blóðsykurstjórn, streitueinkenni, þunglyndis- og kvíðaeinkenni,
lífsgæði og dánarlíkur.

Þá styður tæknin einnig við meðferðarheldni og hjálpar fólki að skilja og takast á við sjúkdóm sinn í daglegu lífi, svo sem með fræðslu og samskiptum við aðra sjúklinga. Loks býður kerfið upp á tengingu milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks fyrir fjareftirlit með einkennum, samskipti og stuðning.