Undirbúningur að stofnun íslensks ríkisolíufélags er í fullum gangi að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra. Hann gerir ráð fyrir að það verði stofnað innan skamms. Hann átti í vikunni fund með olíumálaráðherra Noregs sem staddur var hér á landi. Greint var frá þessu í morgunfréttum RÚV.

„Við notuðum tækifærið til að hittast og ræða samskipti Íslands og Noregs á norðurslóðum og ekki síst vegna hugsanlegrar olíu- og gasvinnslu. Olíumálaráðherrann norski er mjög áhugasamur um samstarf ríkjanna á þessu sviði og við um samstarf við Norðmenn. Þeir hafa ákveðið að taka formlega þátt í olíu- og gasleit á íslenska hluta svæðisins, svoleiðis að það verður mjög áhugavert að fylgjast með þeirri þróun,“ segir Sigmundur Davíð í samtali við RÚV.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að stofnað verði ríkisolíufélag vegna hinnar fyrirhuguðu olíuleitar. Forsætisráðherra segir að búið sé að vinna heilmikla undirbúningsvinnu vegna hins óstofnaða félags. „Vonandi verður hægt að stofna þetta félag formlega áður en mjög langt um líður. Fyrstu verkefnin verða að halda utan um leitina. Þarna byggist vonandi upp þekking á sviði olíuvinnslu, þannig að jafnvel þó svo færi að ekki fyndust nýtanlegar lindir á íslenska hluta svæðisins gæti þetta félag jafnvel þjónustað olíuleit, til dæmis við Færeyjar eða Grænland eða annars staðar,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í samtali við RÚV.