*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 13. mars 2015 15:07

Íslenskt sjávarfang kaupir eignir Vísis á Þingeyri

Störfum mun fjölga við fiskvinnslu á Þingeyri eftir kaup Íslensks sjávarfangs á eignum Vísis.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Útgerðarfyrirtækið Vísir hf. hefur selt fasteignir sínar á Þingeyri, ásamt tækjum og búnað til fiskvinnslu. Kaupandinn er Íslenskt sjávarfang sem stefnir að því að fjölga störfum við fiskvinnslu á Þingeyri frá því sem nú er og vinna og frysta þar allt að 4.000 tonn af fiski á ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Markmiðið með kaupsamningnum er að viðhalda og efla atvinnulíf á Þingeyri og tekur kaupverðið mið af því. Kaupverðið hækkar um 50 milljónir króna standi Íslenskt sjávarfang ekki við þau ákvæði samningsins að halda uppi fullri atvinnustarfsemi á staðnum í fimm ár og vera með að minnsta kosti 20 stöðugildi.

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, segir þessi ákvæði samningsins afar mikilvæg því þau tryggi að starfsfólk Vísis á Þingeyri geti haldið áfram störfum við fiskvinnslu á staðnum eftir að Vísir flytur starfsemi sína til Grindavíkur um næstu mánaðamót.

Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Íslensks sjávarfangs, stefnir að því að fjölga starfsfólki við fiskvinnsluna á Þingeyri úr 20 í 30. Búið sé að tryggja fyrirtækinu nægilegan afla með samningum við eigendur smábáta á svæðinu, dragnótabátsins Egils frá Þingeyri og þriggja togara.