Ríkisstjórnin Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á ekki að þjóna fámennri forréttindastétt heldur opna hagkerfið og vinna að afnámi gjaldeyrishafta, að sögn Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar. Hann steig í ræðustól á Alþingi eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti þar munnlega skýrslu um störf ríkisstjórnarinnar.

Árni Páll kom m.a. inn á að aðildarviðræðum við Evrópusambandið hafi verið slitið og að ekki sé útlit fyrir að krónunni verði skipt út fyrir annan og stöðugri gjaldmiðil. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og ná inn á nýja útflutningsmarkaði.

Hann sagði afleiðingarnar af haftastefnunni og núverandi stefnu í efnahagsmálum, ekki síst í höftum, geta orðið þá að störf flytjast úr landi, s.s. framleiðsla á þekktum innlendum vörumerkjum. Af þeim sökum geti Íslendingar átt von á því að sjá skyrdósir merktar: „Íslenskt skyr made in Sweden.“