Íslenska smáforritið Mussila Music School hlaut í dag þýsku námsgagnaverðlaunin Pedagogical Media Awards 2018 fyrir Besta starfræna efnið fyrir börn og unglinga.

Margrét Júlíana Sigurðardóttir annar stofnandi Mussila tók á móti verðlaununum í München í dag. Þetta er í tuttugasta skiptið sem þessi verðlaun eru afhent en sigurvegarinn er valinn af dómnefnd sem samanstendur af börnum, unglingum og fullorðnum sérfræðingum. Leitað var eftir framúrskarandi forritum, leikjum og vefsíðum fyrir börn og unglinga og varð Mussila Music School fyrir valinu sem stafræna efnið fyrir börn og unglinga.

Leikurinn Mussila kennir börnum grunnatriði í tónlist í gegnum skapandi leik og tónlistaráskoranir. Leiknum er vel tekið út um allan heim, enda er tónlist alþjóðlegt tungumál og inni í leiknum sjálfum eru engin orð.

Tilgangur verðlaunanna er að viðurkenna gildi menntunar í smáforritinu og undirstrika mikilvægi þess að öll börn geti leitað eftir skapandi leikjum í frítíma sínum.

Mikill uppgangur hjá Mussila

Á dögunum var smáforritið einnig valið sem App dagsins á App store (Apple) víða um heim, m.a. í Bretlandi, Kína og Rússlandi. Þróunarteymi Apple velur þau forrit sem þeim finnst skara fram úr á sínu sviði. Það sem Apple tekur mið af við valið á appi dagsins er hönnun, notkun, gæði og hvaða nýjungar forritið hefur upp á að bjóða.

Mussila er framleitt af fyrirtækinu Rosamosa ehf sem var stofnað árið 2015 af Margréti Júlíönu Sigurðardóttir og Hilmari Þór Birgissyni. Í dag eru starfsmenn fyrirtækisins fimm talsins með bakgrunn listum og tækni. Þessi blanda hentar vel fyrir nýsköpun og þróun á tónlistarkennslu fyrir börn í gegnum leik í snjallsímaforriti.

Markmið Rosamosa er að gera tónlistarkennslu aðgengilegri og leikurinn Mussila er liður í þeirri vegferð.