*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 14. nóvember 2011 18:01

Íslenskt sprotafyrirtæki í "Meet the Dragons"

Opnar möguleika á að fá fé frá erlendum fjárfestum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Íslenska sprotafyrirtækið Puzzled by Iceland heldur til Hollands á morgun til að taka þátt í viðburðinum “Meet the Dragons” sem byggður er á sjónvarpsþáttunum Dragons Den á BBC. Sjö sprotafyrirtæki frá sjö Evrópulöndum munu taka þátt í viðburðinum. Puzzled by Iceland verður fulltrúi Íslands og á þar með möguleika á fjárfestingu upp á 100.000 - 1.000.000 evrur. Í tilkynningu Puzzled by Iceland kemur fram að hvert sprotafyrirtæki fái þrjár mínútur til að kynna hugmynd sína fyrir fimm erlendum fjárfestum en þeir fái í kjölfarið fimm mínútur til að spyrja sprotana spjörunum úr og semja við þá um kaup á hlut í fyrirtækinu ef áhugi sé fyrir því.

Puzzled by Iceland, sem var stofnað í fyrrahaust af þeim Guðrúnu Heimisdóttur og Þóru Eggertsdóttur,hjálpar ferðamönnum að varðveita minningarnar frá ferðalögum sínum um heim allan með því að bjóða upp á vandaða minjagripi sem byggðir eru á hinni einföldu og klassísku vöru – púsluspilinu, sem hefur verið lagað að þörfum ferðamannsins. “Tækifæri á borð við þetta getur skipt sköpum fyrir sprotafyrirtæki eins og okkar. Að komast í alþjóðleg tengsl og fjárfestingar getur ráðið úrslitum um hversu hratt og örugglega lítil hugmynd getur orðið að stóru, alþjóðlegu fyrirtæki,” segir Þóra Eggertsdóttir í tilkynningunni.