Virði útflutts vatns til Bandaríkjanna jókst á síðasta ári um rúmlega 70% frá árinu áður. Í heild nam aukning útfluttra vara til Bandaríkjanna um 30%. Fluttar voru út vörur fyrir nærri 25,5 milljarða króna. Hlynur Guðjónsson, ræðismaður Íslands í New York, segir útflutninginn vera á svipuðum nótum og hann var á árinu 2008. Í takt við gengi krónunnar og horfur í efnahagsmálum hérlendis hafa sveiflur á virði útflutningsins verið miklar. Virði útflutnings síðasta árs er svipað og það var á árunum 2008 og 2006, en þess á milli dróst krónutalan mikið saman.

Eimskip fjölgar ferðum

Í kjölfar efnahagssamdráttar á árinu 2008 var Ameríkuferðum Eimskips fækkað og var aðeins ein á mánuði. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku var þeim fjölgað fyrr í sumar og nýrri leið bætt við. Hlynur segir líklegt að aukinn útflutningur vatnsins hafi þar sitt að segja. Árið 2009 voru flutt út um 6,6 milljón kílógrömm af vatni til Bandaríkjanna. Þá hafði orðið mikill samdráttur frá árinu áður, þegar kílóin voru 12,4 milljónir. Útflutningurinn tók svo aftur við sér í fyrra þegar rúmlega 11,8 milljón kíló voru send vestur um haf. Aukning milli ára nemur um 77% og var virðisaukning litlu minni, eða um 74%. Virði vatnsins í fyrra nam alls um 809,2 milljónum króna. Hlynur telur að vatnsútflutningurinn sé kominn til að vera og sé í stöðugri aukningu. Ef fram fer sem horfir verði verðmætið í ár yfir milljarði króna. Benda má á að árið 2003 voru flutt út tæplega 2.000.000 kg af vatni til Bandaríkjanna. Vatnsmagn þangað hefur því um sexfaldast.

Tölur yfir útflutning til Bandaríkjanna byggja á gögnum Hagstofunnar, og lét Hlynur Viðskiptablaðinu í té samantekt á þeim.

Í upphaflegri frétt Viðskiptablaðsins voru tölur yfir vatnsútflutning í tonnum. Þær hafa nú verið færðar í kílógrömm, líkt og Hagstofan mælir útflutninginn.