Raungengi íslensku krónunnar er nú afar lágt, hvort sem miðað er við verðlag eða launakostnað eins og Greingardeild Glitnis bendir á í Morgunkorni sínu. Hefur hlutfallslegur launakostnaður fallið enn hraðar en verðlag undanfarið og má segja að íslenskt vinnuafl sé orðið með því ódýrasta í Vestur-Evrópu í kjölfar gengishruns krónu á síðasta ári.

Seðlabankinn birti í gær nýjan útreikning á raungengi krónu. Bankinn reiknar raungengið með mánaðartíðni miðað við hlutfallslegt verðlag, en á ársfjórðungstíðni miðað við hlutfallslegan launakostnað segir í Morgunkorni. Miðað við mánaðargögnin hækkaði raungengi, mælt á kvarða verðlags, um hálft annað stig í janúar, fyrst og fremst vegna meiri verðbólgu hér á landi en í helstu viðskiptalöndum. Raungengið er þó enn 27% undir langtímameðaltali á þennan kvarða.