Íslensku bankarnir fjórir munu greiða hluthöfum sínum tæplega 32 milljarð króna í arð vegna ársins 2006. Kaupþing banki greiðir hæstu upphæðina eða 10,4 milljarða króna en Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hæsta hlutfallið.


Glitnir er þar næstur en hann greiðir 9,4 milljarða króna í arð, Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki greiðir 7,7 milljarða króna og Landsbankinn 4,4 milljarða króna.


Stjórn Glitnis mun leggja til við hluthafafund að greiddur verði 0,66 krónur á hlut í arð eða 66%. Arðgreiðsla vegna síðasta árs mun því nema 9,4 milljörðum króna. Arðgreiðslan nemur 24,63% af hagnaði bankans. Lagt verður til við hluthafa að þeir fái helming arðgreiðslunnar í formi hlutafjár í Glitni.

Stjórn Kaupþings banka mun leggja til við aðalfund að hluthöfum verði greiddar 10.366 milljónir króna í arð vegna ársins 2006 eða 14 krónur á hlut, sem svarar til 12,2% af hagnaði.

Stjórn Straums-Burðarás Fjárfestingabanka leggur til að greiddur verði 75% hagnaður eða 7.769 milljónir króna en það samsvarar  17,2% af hagnaði bankans. Á síðasta ári greiddi bankinn 6,7 milljarða króna  í arð.


Landsbankinn greiðir 40% arð ofan á nafnverð hlutafjár eða sem svarar 4,4 milljörðum króna.