Íslensku bankarnir voru til umfjöllunar hjá norska dagblaðinu Aftenposten í gær undir fyrirsögninni „Íslendingarnir geta staðið af sér storminn.“

Á meðan stærstu bankarnir á Wall Street hafa fallið í valinn í fjármálakreppunni hafa íslensku bankarnir haldið sér á floti, þvert á alla spádóma fyrir hálfu ári,” skrifar Christian H. Haraldsen, blaðamaður Aftenposten.

Norski blaðamaðurinn rifjar upp þegar Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, blés til gagnárásar síðastliðið vor gegn breskum vogunarsjóðum sem, að hans mati, höfðu haft óeðlileg áhrif á markaðinn með skuldatryggingar.

Þá hafði hátt álag á skuldatryggingar bankanna kynt undir ótta við að gjaldþrot íslensku bankanna væri yfirvofandi. Rætt er við Grétar Axelsson, greinanda hjá Glitni, sem bendir á að þegar Lehman Brothers varð gjaldþrota hafi álagið á skuldatryggingar bandaríska fjárfestingarbankans verið lægra en álag íslensku bankanna.

Grétar bendir jafnframt á að íslensku bankarnir hafi gripið til ýmissa ráðstafana vegna lánsfjárkrísunnar sem ekki hafi ratað í erlenda fjölmiðla. Nefnir hann hratt hækkandi hlutfall innlána í fjármögnun bankanna, sölu eigna og hagræðingu í rekstri. Vegna þessara ráðstafana geti bankarnir nú starfrækt sig fram á seinni hluta næsta árs án þess að sækja sér krónu á lánamarkaði.

„Hvort sem markaðurinn með skuldatryggingar gefur ranga mynd eða ekki, hefur hátt álag ekki dugað til að knésetja íslensku bankana. En þessi fjármálagerningur átti stóran þátt í gjaldþroti stærsta tryggingafélags heims, AIG,” klykkir norski blaðamaðurinn út með.