Niðurstaða álagsprófs sem Fjármálaeftirlit Evrópu gerði á 51 evrópskum banka og birt var rétt fyrir mánaðamót gefur til kynna að bankarnir séu almennt vel til þess fallnir að takast á við neikvæð efnahagsáföll. Álagsprófið einblínir fyrst og fremst á áhrif efnahagshruns á eiginfjárhlutföll bankanna, sem þykja hvað mest lýsandi mælikvarðinn á stöðu þeirra.

Vegna viðunandi eiginfjárstöðu flestra banka myndu þeir standa af sér hrun miðað við verstu sviðsmyndir prófsins, en eiginfjárhlutfall einungis tveggja banka myndi falla undir 7%. Lágmarkskrafan um eiginfjárhlutfall verður einmitt 7% eftir að Basel III aðlögunartímanum lýkur árið 2019, en hlutföll íslensku bankanna þriggja eru mun hærri.

Íslensku bankarnir með mun meira eigið fé Íslensku bankarnir Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn eru í algerri sérstöðu meðal evrópskra banka með tilliti til eiginfjárhlutfalls. Samkvæmt síðustu ársreikningum bankanna voru eiginfjárhlutföllin 24,2 prósent hjá Arion banka, 30,1 prósent hjá Íslandsbanka og 30,4 prósent hjá Landsbankanum.

Meðal-eiginfjárhlutfall þeirra er því 28,2 prósent og er mun hærra en annars staðar. Finnskir og sænskir bankar koma næstir með eiginfjárhlutfall upp á 19,5% og 18,9%, danskir bankar eru með 16,9% eiginfjárhlutfall og norskir bankar 14,3%. Meðaltalið í Evrópu er 13,2% og samkvæmt álagsprófinu myndi það enda í 9,4% ef versta sviðsmynd yrði að veruleika.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .