Skuldir íslensku bankanna við seðlabanka, innlendan sem erlenda, hafa líklega tvöfaldast frá áramótum. Lunginn af þeirri aukningu féll til á öðrum fjórðungi ársins.

Þótt engin svör fáist við því hversu mikil lán þeir hafa tekið hjá Evrópska seðlabankanum má ætla að lánsupphæðin geti hlaupið á 200-300 milljörðum króna og að Landsbankinn og Glitnir hafi verið stórtækastir í lántökum.

Þegar bankað er upp á hjá stóru bönkunum þremur, Kaupþingi, Landsbankanum og Glitni og spurt hvort og hversu mikið fé þeir hafi sótt sér til Evrópska seðlabankans á undanförnum mánuðum er enginn sem vill ljúka upp, í besta falli að opnuð sé örlítil smá rifa en meira ekki.

En eins og ævinlega leikur mönnum þá auðvitað sérstök forvitni á að að vita hvað er á bak við dyrnar – einfaldlega vegna þess að þær eru lokaðar. Hið opinbera svar frá bönkunum við spurningunni um hvort eða hversu mikið þeir hafa sótt sér af evrum hjá hinum franska Jean-Claude Trichet í Frankfurt er einfaldlega á þá leið að þeir tjái sig ekki um einstök viðskipti við einstaka seðlabanka.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .