Samkvæmt könnun The Banker, tímarits á vegum Financial Times, koma íslensku bankarnir vel út og eru allir að bæta sig. Þetta kemur fram í Hagsjá Landabankans .

The Banker birti í júlí mat sitt á styrk og frammistöðu 1.000 fremstu banka heimsins, en tímaritið hefur birtsamskonar lista árlega frá árinu 1970. Helstu niðurstöðu samantektarinnar er aukinn hagnaður 1.000 fremstu bankanna en hagnaður bankanna á árinu 2013 fór í fyrsta sinn fram úr metárinu 2007.

Af  þeim þremur flokkum sem metnir eru koma íslensku bankarnir best út úr fjárhagslegum styrk, sem metinn er út frá eiginfjárhlutfalli (CAR), og frammistöðu, sem metin er út frá arðsemi eigna (ROA). Landsbankinn er í 20. sæti í heiminum og 1. sæti í Vestur-Evrópu hvað fjárhagslegan styrk varðar. Bankinn er með CAR-hlutfall upp á 20,6%.

Þegar frammistaðan er metin eru Landsbankinn og Íslandsbanki hlið við hlið í sætum 39 og 38 en Arion Banki vermir 248. sæti.

Kostnaðarhlutfall íslensku bankanna er svipað og í löndunum í kringum okkur, en hlutfallið mælir hagkvæmni í rekstri. Hjá Norðurlöndunum er þetta hlutfall almennt í kringum 50%, lægst í Noregi þar sem það er 41,3%. Hlutfallið er lægst á Íslandi hjá Landsbankanum, 40,3%, þar næst kemur Arion með 59,7% og loks Íslandsbanki með 65,3%