Íslensku flugfélögin Icelandair og Wow air eru einu norrænu flugfélögin sem bjóða upp á flug til Logan-flugvallar í Boston, Bandaríkjunum. Túristi greinir frá þessu.

Farþegar frá Íslandi geta valið á milli allt að fjögurra brottfara á dag til Boston. Wow air hóf flug til borgarinnar nú í vikunni og mun bjóða upp á sex ferðir til hennar í viku allt árið um kring. Þá flýgur Icelandair til borgarinnar tvisvar til þrisvar á hverjum degi.

Í umfjöllun Túrista kemur fram að orðrómur hafi verið á kreiki um að SAS ætli að koma sér fyrir í Boston næsta haust og opna flugleið milli borgarinnar og Óslóar. Forsvarsmenn flugfélagsins hafi hins vegar ekki viljað staðfesta þetta.