*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 19. ágúst 2015 09:14

Íslensku flugfélögin fá samkeppni

Forsvarsmenn Norwegian hafa tilkynnt að flugfélagið muni hefja áætlunarflug til Boston á næsta ári.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Íslensku flugfélögin Icelandair og Wow air hafa hingað til verið einu norrænu flugfélögin sem bjóða upp á áætlunarflug til Boston í Bandaríkjunum. Hins vegar verður á því breyting á næsta ári þegar Norwegian mun hefja flug til borgarinnar frá Kaupmannahöfn og Ósló. Túristi greinir frá þessu.

Icelandair og Wow air fljúga til borgarinnar samanlagt þrisvar til fjórum sinnum á dag. Norwegian ætlar sér að bjóða upp á tvær ferðir í viku frá Ósló og eina frá Kaupmannahöfn. Auk þess mun félagið bjóða upp á fjórar ferðir í hverri viku frá Gatwick-flugvelli í Lundúnum.

„Við vitum að fólk vill helst fljúga beint milli áfangastaða. Það er bæði þægilegra, umhverfisvænna og sparar tíma. Við höfum mikla trú á að flugið til Boston verði vinsælt, ekki bara hjá Skandinövum og Bretum heldur einnig Bandaríkjamönnum,“ segir Lasse Sandaker-Nielsen, talsmaður Norwegian, í samtali við Túrista aðspurður hvað norska félagið hafi að bjóða umfram þau íslensku í flugi til Boston. Býst hann við að félagið muni auka umsvif sín í flugi til Boston á næstu árum.

Stikkorð: Icelandair Norwegian Wow air Boston