„Jólaeldhúsrúllurnar sóma sér vel á hverju heimili um jólin,“ segir Alexander Kárason, sölustjóri hjá Papco. Fyrirtækið hefur fært  vörur sínar í jólabúning fyrir hátíðirnar en myndir af íslensku jólasveinunum prýða bæði eldhúsrúllur og salernispappír Papco.

Fram kemur í tilkynningu frá Papco að ásamt því að setja á markað pappír með myndum af jólasveinunum þá bjóði fyrirtækið viðskiptavinum sínum upp á vinsælan jólaleik í verslunum þar sem vinningar leynast í mörgum jólapappírspökkunum.

Ennfremur segir þar að af hverjum seldum jólapappírspakka gefi Papco eina rúllu til styrktar Mæðrastyrksnefndar og Fjölskylduhjálpar Íslands.

„Það hafa verið mjög góð viðbrögð við leiknum og við höfum selt hátt í 30 þúsund jólapappírspakka nú í byrjun desember sem þýðir að á þessari stundu eru 30 þúsund rúllur á leið til þessara aðila og munu koma í góðar þarfir,“ er haft eftir Alexander í tilkynningunni. Hann hvetur önnur fyrirtæki til góðverka um jólin enda sé neyðin þá mest.