Króna
Króna
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Uppgjör gjaldmiðlaskiptasamninga sem lífeyrissjóðirnir gerðu fyrir bankahrun munu að öllum líkindum lenda fyrir dómstólum í haust. Viðræður á milli sjóðanna og skilanefnda gömlu bankanna þriggja hafa staðið yfir í rúmlega tvö og hálft ár en hafa engu skilað og er að mestu lokið. Verði gengið að ýtrustu kröfum skilanefndanna í deilunni myndi það þýða 70-80 milljarða króna hreina tapstöðu fyrir lífeyrissjóði landsins. Ofan á þá tölu myndu síðan bætast dráttarvextir frá uppgjörsdegi samninganna.

Stóðu með krónunni

Íslenskir lífeyrissjóðir tóku stórar stöður með íslensku krónunni á uppgangstímum íslensks viðskiptalífs fyrir bankahrun. Yfirlýstur tilgangur þeirra var að verja sig fyrir tapi á erlendri verðbréfaeign sjóðanna ef krónan styrktist. Krónan hrundi hins vegar við bankahrunið og við það myndaðist gríðarhá tapstaða á þeim framvirku gjaldmiðlaskiptasamningum sem lífeyrissjóðirnir höfðu gert við bankana. Eftir hrun hafa átt sér stað viðræður milli lífeyrissjóðanna og skilanefnda Kaupþings, Glitnis og Landsbankans um hvernig eigi að gera þessa samninga upp. Lífeyrissjóðirnir vilja meina að forsendur hafi brostið fyrir tilvist samninganna í aðdraganda að falli bankanna og við fall þeirra haustið 2008.

Vilja gera upp á 175

Á grundvelli þeirrar röksemda hafa sjóðirnir boðist til að gera alla gjaldmiðlaskiptasamninga sína upp á gengisvísitölunni 175, sem var staða hennar þegar bankarnir féllu. Það myndi þýða sameiginlega tapstöðu fyrir lífeyrissjóðina í samningunum upp á 73-74 milljarða króna. Á móti eiga þeir skuldabréf á bankana sem gætu þá nýst að fullu til skuldajöfnunar um helming þeirrar upphæðar. Tap lífeyrissjóðanna á gjaldmiðlaskiptasamningunum, ef skilanefndirnar tækju tilboði þeirra, væri því tæplega 40 milljarðar króna. Lífeyrissjóðirnir gera allir gjaldmiðlaskiptasamninga sína upp í ársreikningum miðað við þessa niðurstöðu.

Ekki saknæmir samningar

Skilanefndirnar hafa hins vegar ekki viljað taka þessu tilboði í þau tvö og hálft ár sem rætt hefur verið um það. Viðmælendur innan þeirra segja að til að hægt verði að fallast á kröfur lífeyrissjóðanna þá þurfi að sýna fram á að bankarnir hafi framið saknæmt athæfi við gerð gjaldmiðlaskiptasamninganna. Takist það ekki sé einfaldlega um samning milli tveggja aðila að ræða sem beri að gera upp. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að samningsviðræður við Glitni og Kaupþing hafi þegar runnið út í sandinn. Viðræður við Landsbankann eru einhverjar en ekki miklar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.