*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 10. október 2012 16:10

Íslenskur vindbúnaður í öllum heimsálfum

Starfsmenn verkfræðistofunnar Vista kynna hugbúnaðinn Vista Data Vision á veðurfræðasýningu í Brussel í næstu viku.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Hugbúnaður Vista Data Vision til sýnis.
Aðsend mynd

„Þessi hugbúnaður hefur verið í þróun hjá okkur í tíu ár. Nú erum við komin með kerfið í allar heimsálfur nema á Suðurskautslandinu,“ segir Andrés Ásgeir, markaðsstjóri Vista Data Vision hjá verkfræðistofunni Vista. 

Starfsmenn stofunnar halda utan til Brussel í næstu viku á sýninguna Meteorological World Expo. Á sýningunni verða stærstu fyrirtækin á sviði veðurfræða hvort sem það eru veðurspár, loftgæðismælingar, eldingavarnir, sólargeislun eða tækjabúnaður til að mæla öll veðurafbrigði.

Þetta er annað árið í röð sem starfsmenn verkfræðistofunnar halda utan en á sýningunni kynna þeir hugbúnaðinn Vista Data Vision sem notaður er til að geyma hverslags mæligögn um veður og gerir notendum kleift að rannsaka alla mælisöguna á vefnum. Hugbúnaðurinn er jafnframt notaður til mælingar í byggingariðnaði og í vindorku. Stórar viðbætur verða sýndar sem verða í næstu útgáfu Vista Data Vision sem væntanleg er í næsta mánuði. 

Á verkfræðistofu Vista vinna tíu manns. Þar af hafa fjórir unnið við veðurhugbúnaðinn síðastliðin tíu ár.