Halldóri P. Ragnarssyni hefur verið sagt upp sem forstjóra danska verktakafyrirtækisins Pihl & Søn eftir afar lélegt uppgjör fyrir síðasta ár. Pihl & Søn er móðurfyrirtæki Ístaks.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að Jan-Gunnar Glave, fyrrverandi forstjóri verktakafyrirtækisins Skanske, muni gegna forstjórastöðunni tímabundið þar til Jens Nyhus, sem er nýhættur hjá M.T. Højgaard, getur tekið við starfinu. Greint var frá forstjóraskiptunum sama dag og afkoma fyrirtækisins var kynnt.

Halldór P. Ragnarsson.
Halldór P. Ragnarsson.

Halldór hefur ekki gegnt forstjórastöðunni lengi, en hann tók við af Søren Langvad í mars í fyrra. Hann hafði unnið hjá Pihl frá árinu 1982. Áður en hann tók við af Langvad var hann framkvæmdastjóri innlendra verkefna hjá Pihl og formaður danska verktakasambandsins.

Í fyrra skilaði Pihl tapi upp á 473 milljónir danskra króna, andvirði um 9,9 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Í fréttatilkynningu frá Pihl kom fram að velta í fyrra, um 5,5 milljarðar danskra króna, hefði verið sambærileg og árið 2011, en afkoman í fyrra væri óásættanleg. Tapið hafi að stærstum hluta komið til vegna afskrifta á verkefnum og skulda vegna eldri verkefna utan Danmerkur. Sem dæmi er nefnt að tafir á verkefni í Sri Lanka hafi kostað um 100 milljónir danskra króna. Starfsemi Pihl í Danmörku og á Íslandi skili hins vegar ágætum arði.

Til að tryggja fjárhagslega stöðu fyrirtækisins eru hafnar viðræður við eigendur, banka og tryggingafélag Pihl um endurfjármögnun skulda fyrirtækisins. Vegna þessa mikla taps á verkefnum utan Norðurlandanna mun Pihl draga mjög úr þátttöku í útboðum á öðrum svæðum, þótt henni verði ekki hætt alfarið.