Kaup MP-fjárfestingarbanka í Austur-Evrópsku spilavítakeðjunni Olympic Entertainment Group (OEG) í gær hækkuðu hlutabréf í félaginu um tæp 3% og kynnti undir áhuga fjárfesta, að því er fram kemur á fréttavef BBS.

MP-fjárfestingarbanki rekur útibú í Litháen en OEG er skráð í kauphöllina í Eistlandi. MP-fjárfestingarbanki keypti alls 128.500 hluta í félaginu, sem er rétt um 1% af heildarhlutafé og var um tiltölulega lága upphæð að ræða að sögn Styrmis Þórs Bragasonar, forstjóra MP-fjárfestingarbanka.

„Kaupin voru gerð í okkar nafni en eru hins vegar fyrir viðskiptavin okkar, sem við getum ekki nefnt. Við höfum hins vegar mælt með þessu félagi að undanförnum og teljum það áhugavert,” segir Styrmir.

Rekstur MP-fjárfestingarbanka var góður á seinasta ári  og jókst hagnaður hans um 39% milli ára og nam 1,8 milljörðum króna eftir skatta árið 2007. Efnahagur bankans stækkaði milli ára um 22% og er nú 52 milljarðar.

Mikil umsvif og 3000 starfsmenn

Velta með hlutabréf í OEG í kauphöllinni í Eistlandi í gær nam 9,2 milljónum eistneskra króna, sem er óvenju mikið fyrir það félag, og hækkaði eistneska úrvalsvísitalan um 0,48% í kjölfarið. OEG, betur þekkt sem Olympic Casino, er umsvifamesti aðili í spilavítarekstri á þessu svæði og hefur yfir 3 þúsund starfsmenn.

Félagið rekur spilavíti í Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Hvíta-Rússlandi, Úkraníu, Rúmaníu og Pólandi, ásamt því að eiga dótturfélag í Slóvakíu.

BBS greinir frá að markaðssérfræðingar ytra telji að þrótt að hægt hafi á vexti Olympic hafi það enn talsverða vaxtamöguleika og væntingar fyrir félagið séu góðar. Þá megi rekja áðurnefnd kaup til þess trausts sem kaupendurnir bera til stjórnendateymis þess og framtíðarsýnar.