Íslenskur bjór undir merkinu Black Death hefur verið valinn til sölu í yfir 100 verslunum Vinmonopolet í Noregi. Norskir bjórunnendur geta keypt bjórinn frá fimmtudeginum í næstu viku þegar fyrstu flöskurnar berast í verslanir. Black Death er bruggaður í ölgerð Vífilfells á Akureyri.

Fram kemur í tilkynningu að upphaf þess að norska ríkiseinkasalan (Vinmonopolet) ákvað að taka Black Death til sölu í verslunum sínum var svokallað blindsmakk, þar sem innkaupastjórar og bragðgæðingar bragða „blint“ á nýjum bjórtegundum. Bjórinn hlaut einróma lof fyrir gott bragð og var tilkynnt 1. mars síðastliðinn að ákveðið hafi verið að selja bjórinn í Noregi.

Forsvarsmenn innflutningsaðilans í Noregi telja að umbúðirnar eigi eftir að höfða til Norðmanna - ekki síst áhugafólks um þungarokk. Sá hópur er nokkuð stór í Noregi og er jafnframt stór markhópur þegar kemur að bjórsölu.