Miklir erfiðleikar steðja að verslunarveldi því sem rekið hefur verið undir fjárfestingasjóðinum Kcaj sem er í eigu fjárfestingafélaganna Milestone og Arev.

Að því er kemur fram í Drapers er verslunarkeðjan Blooming Marvellous komin í greiðslustöðvun en hún rekur 14 fataverslanir í Bretlandi. Að því er kemur fram í Drapers hefur Zolfo Cooper verið skipaður sem tilsjónarmaður. Þar kemur einnig fram að stjórnendur Blooming Marvellous, þeir Jonathan Eeles og Rupinder Cheema, hafi hætt í nóvember síðastliðnum.

Kcaj keypti Blooming Marvellous fyrir fimm milljónir punda í september 2007. Meðal annarra fjárfestinga sjóðsins eru Jones Bootmaker og Mountain Warehouse. Sömuleiðis átti sjóðurinn áður verslanakeðjunar Hardy Amies og Ghost sem fóru í gjaldþrotameðferð fyrir stuttu og hefur rekstur þeirra verið seldur nýjum aðilum.