Íslenskur fjárfestir ætlar að fara fram á við Seðlabankann að félag í hans eigu, sem á krónur hér á landi, fái heimild til að skipta þeim yfir í evrur. Verði þeirri beiðni hafnað hyggst hann leita réttar síns á grundvelli þess að bankinn gæti ekki jafnræðis þegar veittar eru undanþágur frá höftunum. Er þá verið að vísa til þeirrar leiðar sem Deutsche Bank á að notast við til að losa um 15 milljarða króna út úr íslensku hagkerfi. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Í frétt blaðsins er einnig sagt frá því að til að geta millifært íslenskra króna yfir í gjaldeyri í því augnamiði að flytja fjármagnið úr landi þarf sérstaka undanþágu frá lögum og reglum sem gilda um gjaldeyrismál svo hægt sé að heimila slíka millifærslu. Segir að þetta sé samdóma álit lögmanna sem blaðið leitaði til. Þeir benda ennfremur á að það skipti ekki máli í því samhengi hvort sambærileg upphæð í erlendri mynt hafi komið inn í landið og gengisstöðugleika því ekki ógnað; það sé eftir sem áður alveg skýrt að slíkar fjármagnshreyfingar séu óheimilar nema til staðar sé undanþága frá Seðlabankanum.

Þess ber að geta að Seðlabanki Íslands mótmælti þessari túlkun Morgunblaðsins á dögunum og tók fram að engar undanþágur sem geta haft alvarleg áhrif á stöðugleika krónunnar hafa verið veittar til kaupa á gjaldeyri fyrir krónur til að flytja úr landi.