Fulltrúi Íslensku friðargæslunnar, Ólöf Magnúsdóttir, heldur um helgina til starfa í Palestínu í tveggja mánaða verkefni hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu en Ólöf mun aðstoða staðarskrifstofu Barnahjálparinnar við að miðla upplýsingum um aðstæður barna á átakasvæðum Palestínu og neyðaraðstoð þeim til handa.

Starfið felst m.a. í því að vinna úr upplýsingum sem berast frá staðarráðnum starfsmönnum og miðla til höfuðstöðva og framlagaþjóða Barnahjálparinnar í tengslum við væntanlega neyðaraðstoð.

Þá kemur fram í tilkynningunni að annar Íslendingur, Guðmundur E. Birgisson sálfræðingur, starfar á vegum friðargæslunnar hjá sömu skrifstofu að eftirliti með barnaverndarmálum. Þessu til viðbótar eru fjórir fulltrúar á vegum friðargæslunnar í Mið-Austurlöndum sem allir vinna hjá undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna m.a. að málefnum palestínskra og íraskra flóttamanna.