Íslenskur gítarstillir fyrir farsíma hefur slegið algerlega í gegn hjá símarisanum Nokia. Hugbúnaðarlausnin er sú langvinsælasta sem notendur snertiskjásíma frá Nokia geta hlaðið niður í nýrri og öflugri vefverslun fyrirtækisins. Um er að ræða gítarstilli sem er markaðssettur undir heitinu Tunerific en hann gerir notanda Nokia farsímans kleift að styðjast við símann sinn einvörðungu þegar hann stillir strengina.

Í tilkynningu kemur fram að farsíminn nemur hljóð frá gítarnum og gefur myndrænt merki um hvernig stilla eigi strengina.  Upprunalega er lausnin þróuð af nemanda við Háskóla Íslands í samvinnu við kennarann sinn en hugmyndin þótti það góð að hún hlaut hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands fyrir tveimur árum.

Hugvakinn

Þeir Guðmundur Freyr Jónasson, fyrrverandi nemandi við HÍ og Jóhann P. Malmquist prófessor við HÍ,  reka saman sprotafyrirtækið Hugvakann sem hefur þróað gítarstillinn en fyrirtæki þeirra hefur það verkefni að sækja á fleiri markaði og þróa frekari forrit í farsíma. Næstu skref Hugvakans eru m.a. að bjóða Tunerific til sölu í verslun Sony PlayNow og bjóða nýja afurð til sölu í Ovi verslun Nokia, Ukulele-stilli og Ukulele-hljómabók segir í tilkynningu.

Hugvakinn er eitt fjölmargra sprotafyrirtækja sem sprottið hafa úr jarðvegi Háskóla Íslands. Það er hlutverk Háskóla Íslands að leggja á ráðin um uppbyggingu til framtíðar og markmið Háskólans er sem aldrei fyrr að unga út hugmyndum, verkefnum og sprotafyrirtækjum sem verða ný aflstöð í atvinnulífinu. Háskóli Íslands hefur það að markmiði að hraða þróun sprotafyrirtækja og auka líkur á að þau verði að fullburða fyrirtækjum og láti kveða að sér í atvinnu- og verðmætaskapandi starfsemi eins og Hugvakinn er að gera.

Þess má geta að Hugvakinn hefur einnig hlotið stuðning Rannís og Nýsköpunarstöðvar við þróun Tunerific.