Íslenska sprotafyrirtækið Risk Medical Solutions hefur sett RetinaRisk á markað í Bandaríkjunum. RetinaRisk er hugbúnaður, sem hjálpar sjónfræðingum og augnlæknum við að taka klínískar ákvarðanir við skimanir fyrir augnsjúkdómum tengdum sykursýki.  Áætlað er að 32 milljónir Bandaríkjamanna þjáist af sykursýki.

Fyrirtækið Risk Medical Solutions var stofnað 2009. Markmið fyrirtækisins er að þróa og markaðssetja einstaklingsmiðaðar hugbúnaðarlausnir fyrir heilbrigðiskerfi sem skila hagræðingu og auknu eftirliti með sjúklingum.

„Risk Medical Solutions hefur undanfarna mánuði átt í samningaviðræðum við bandarískt tryggingarfyrirtæki um sölu og dreifingu á kerfinu um öll Bandaríkin en fyrirtækið er eitt það stærsta á þessum markaði og tryggir 69 milljónir Bandaríkjamanna," segir í fréttatilkynningu. "Á næstu árum stendur einnig til að dreifa kerfinu í Evrópu og Asíu, en ekkert sambærilegt kerfi er til á markaðnum í dag."

Í tilkynningunni er haft eftir Ólafi Pálssyni, framkvæmdastjóra Risk Medical Solutions, að RetinaRisk-hugbúnaðurinn sé að koma á hárréttum tíma inn á markaðinn.

„Því kerfið stílar inn á þær breytingar sem eru að eiga sér stað með The Affordable Care Act eða ObamaCare. Á næstu sex árum mun einstaklingum sem þurfa á þjónustu sjónfræðinga að halda fjölga um 40 milljónir. Kerfið býður læknum upp á skilvirkari leiðir til meðferðar sem og fræðsluefni fyrir sjúklinga. Það má því segja að RetinaRisk muni hjálpa einstaklingum við að stýra sínum sjúkdómi betur og draga úr blindu tengdri sykursýki meðal Bandaríkjamanna.”

Hluthafar í Risk Medical Solutions eru Bæjarbúið ehf., Háskóli Íslands og Landspítalinn auk stofnenda fyrirtækisins, þeim Einari Stefánssyni, Ólafi Pálssyni, Örnu Guðmundsdóttur, Thor Aspelund og Stefáni Einarssyni. Fyrirtækið hefur fengið styrki frá Tækniþróunarsjóði, Landsbankanum og LSH. Starfsemi RMS byggir á rannsóknum Einars Stefánsson, prófessors við Augnlæknadeild HÍ. Hann hefur rannsakaði skimanir fyrir sykursýkisaugnsjúkdómum í yfir 30 ár.