Íslenski tímaskráningarhugbúnaðurinn TEMPO frá TM Software er nú seldur til um 50 landa, en sala á búnaðinum hefur margfaldast yfir netið fyrstu mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Meðal nýrra viðskiptavina eru Kodak og Intel í Bandaríkjunum.

Pétur Ásgeirsson hjá TM Software segir í tilkynningu að sú leið að selja TEMPO í gegnum netið hafið gefist gríðarlega vel. „Upphaflega var TEMPO innanhússlausn en eftir að hafa skoðað sambærilegar vörur sáum fljótlega að okkar lausn ætti mikla möguleika í sölu."

Ákvörðun var tekin um að markaðssetja búnaðinn í gegnum netið og með kynningum í samstarfi við Atlassian. „Við byrjuðum árið 2009 og salan fór hægt af stað en í kjölfar þess að við kynntum búnaðinn á Atlassian ráðstefnu árið 2010 fóru hjólin að snúast og salan hefur marfaldast upp frá því."

Þá segir að fjölmörg fyrirtæki víða um heim hafi tekið búnaðinn í sína þágu og virðist hafa náð góðri fótfestu í Bandaríkjunum og víða í Evrópu, svo sem í Þýskalandi. „Þá höfum við náð fótfestu í Ástralíu og vaxandi áhugi er til staðar í Suður-Ameríku. Við höfum þegar lokið við þýska og franska útgáfu af búnaðinum en í farvatninu eru portúgölsk og spænsk útgáfa af TEMPO, sem segir margt um þann áhuga sem er til staðar á þessari lausn," segir Pétur.

Pétur segir að megin ástæðan fyrir velgengni TEMPO sé sú að TM Software hafi lagt mikla áherslu á  þróun búnaðarins áður en hann var settur á markað. „Við gátum þar af leiðandi boðið verulega öfluga lausn sem gengur án vandkvæða. Þá höfum við unnið ötullega að því að þróa búnaðinn enn frekar, svo sem með viðbótum og nýjum útgáfum mánaðarlega. Við höfum ennfremur lagt mikla áheyrslu á að þróa Tempo í samvinnu við viðskiptavini okkar."

TEMPO 6.0 kom á markað fyrir skömmu. "Markmiðið með nýju útgáfunni var að þróa tengingar við JIRA og annan hugbúnað, svo sem Excel, bæta skýrslugerð og tengingu við Atlassian Greenhopper," segir Pétur.

Ennfremur segir í tilkynningunni:

TEMPO er tímaskráningarkerfi, sem er þróað sem viðbót við JIRA verkbeiðna- og þjónustukerfið frá Atlassian í Ástralíu, sem er einn stærsti söluaðili á þess konar búnaði í heiminum. Engir sölumenn koma við sögu við sölu á TEMPO heldur felst megin þunginn í markaðsaðgerðum í því að ná aðsókn inn á vef lausnarinnar tempoplugin.com.