FisHmark er íslenskur hugbúnaður fyrir sjávarútvegsfyrirtæki sem leggur til hagkvæmasta fyrirkomulagið að veiðum og vinnslu á fiski, getur aukið virði sjávarfangs og um leið stuðlað að auknum hagnaði fyrirtækja. Frumgerð að búnaðinum er tilbúin og stefnt er að því að sjávarútvegsfyrirtæki geti tekið hann í notkun á næsta ári.    Hugbúnaðurinn er sá fyrsti sinnar tegunda en hann er samstarfsverkefni matvælarannsóknafyrirtækisins Matís og hugbúnaðarfyrirtækjanna AGR, Maritech og TrackWell, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Með FisHmark er meðal annars hægt að greina hvaða þættir hafa áhrif á virði sjávarfangs og afkomu fiskveiða og fiskvinnslu, búa til tillögur að hagkvæmasta fyrirkomulagi að veiðum og ráðstöfum afla,auka virði sjávarfangs og tryggja aðgang inn á kröfuharða sérmarkaði og leita hagkvæmustu lausna í virðiskeðju þorskafurða og auka hagnað fyrirtækja.

Til að sýna fram á möguleika FisHmark hefur m.a. verið sett upp dæmi um fyrirtæki með einn togbát til veiða og fiskvinnslu staðsetta á Grundarfirði. Til einföldunar er gert ráð fyrir að togbáturinn geti landað á tveimur löndunarhöfnum, Grundarfirði og Höfn á Hornafirði. Til þess að ákvarða hagkvæmasta fyrirkomulagið að veiðum með FisHmark eru m.a. skoðaðir eftirtaldir þættir: Samanburður á höfnum, leiguverð á kvóta, afköst fiskvinnslu, aflasamsetning, útflutningsálag, lokun svæða, takmörk á kvótaleigu, útgerð án fiskvinnslu og aflahlutir. Miðað við bestu lausn var 9,5% aukinn hagnaður af rekstrinum ef veitt var úti fyrir Vesturlandi í stað veiða suðaustanlands.   Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóði Rannís.