Pizzastaðurinn Steveston Pizza í Vancouver í Kanada býður viðskiptavinum sínum upp á íslenska leturhumar (l. Nephrops nervegicus) á rándýrri sjávarréttapizzu.

Humarinn er ekki á hvaða flatböku sem er heldur á þeim í dýrari kantinum. Pizzan með humrinum íslenska er með reyktum urriða og blöndu af öðrum humri. Panta þarf pizzuna með eins dags fyrirvara og kostar hún litla 120 Kanadadali, jafnvirði 15.000 íslenskra króna.

Þetta er næst dýrasta flatbaka staðarins sem að jafnframt býður viðskiptavinum sínum upp á hefðbundnar pizzur eins og flestir hafa efni á. Meðalverð á réttum hússins fyrir fullorðna er frá 20 til 28 dölum, allt að 3.500 íslenskar krónur.

Dýrasta pizzan á matseðli Steveston Pizza kostar talsvert meira en sú með íslenska humrinum. Í hana er jafnframt talsvert lagt og á henni er blanda af humri og Alaskaþorski ásamt dökkum kavíar frá Rússlandi. Verðmiðinn er í samræmi við það, 450 dalir á pizzu, tæpar 57.000 íslenskar krónur.

Dýru pizzuna þarf sömuleiðis að panta með eins dags fyrirvara.

Hér að neðan má sjá brot af matseðli staðarins ásamt einni af pizzunum. Hér er svo hlekkur á matseðilinn. Sjávarréttapizzan með íslenska leturhumrinum er neðarlega á listanum.