Sjónvarpskokkurinn Gordon Ramsay var staddur hér á landi á dögunum. Meðal þess sem hann tók sér fyrir hendur var að fara á lundaveiðar í Vestmannaeyjum og segir hann farir sínar af þeim ekki sléttar. Ramsay var bitinn í nefið af lunda og sauma þurfti þrjú spor.

Einnig rann Ramsay til og datt í sjóinn á veiðunum, samkvæmt frétt Telegraph. Þegar hann lenti í köldum sjónum hélt hann að dagar sínir væru taldir. Tökulið þáttarins, The F Word, fiskaði Ramsay þó upp úr sjónum áður en hann lét lífið.

Ramsay segir í viðtali við Telegraph að hann ljúgi enn að fólki að krakkarnir sínir hafi kýlt sig í nefið, þar sem hann skammist sín fyrir að segja frá því að lundi hafi bitið sig.