Íslenskur ís er notaður í mjólkurhristinga í Hamborgarabúllu Tómasar í London, eða Tommi´s Burger Joint, og hefur vakið mikla lukku. Hamborgarastaðurinn í London opnaði í ágúst í fyrr og blaðamaður Viðskiptablaðsins heimsótti staðinn.

Eigendur Hamborgarabúllunnar leituðu eftir réttu ísblöndunni í London en enginn ís uppfyllti kröfur þeirra. Í framhaldi ákváðu þeir að flytja út islenskan ís frá Kjörís. Þetta kemur fram í tilkynningu. Viðskiptavinir Hamborgarabúllunnar hafa gert nýja ísinn að umfjöllunarefni á samskiptasíðum eins og Twitter.

Guðrún Hafsteinsdóttir hjá Kjörís segir að góðar viðtökur við framleiðslu fyrirtækisins í Lundúnum hafi komið starfsfólki ísverksmiðjunnar í opna skjöldu. „Við höfum nú aldrei séð tækifæri til að standa í útrás fyrr og höfum bara framleitt fyrir íslenskan markað, auk þess að flytja inn Ben&Jerry‘s og Magnum, en hver veit nema það eigi eftir að breytast í framtíðinni. Við munum allavega að framleiða áfram fyrir búllurnar hans Tomma, þar sem þær opna. Svo er spurning hvort að það leiði til einhverra frekari fyrirspurna,“ segir Guðrún. Til stendur að opna nýja Hamborgarabúllu í Berlín innan skamms og þá mun koma í ljós hvernig Þjóðverjum líkar við íslensku mjólkurhristingana sem vakið hafa lukku hjá ensku gestunum.