Sameining Mjólkurbús Flóamanna og Mjólkursamsölunnar er komin á dagskrá. Stefnt er að því að ákvörðun um sameiningu þessara tveggja samvinnufélaga mjólkurframleiðenda verði til formlegrar umfjöllunar á aðalfundum félaganna í mars á næsta ári. Áætlað er að ársvelta MBF og MS í sameinuðum rekstri verði 7,6- 8,0 milljarðar króna.

Fulltrúaráð MBF og MS samþykktu á fundum sínum 8. og 9. desember sl. tillögu stjórna félaganna um umboð þeim til handa til þess að vinna að sameiningu í samræmi við gildandi lög um samvinnufélög.

Mjólkurbú Flóamanna og Mjólkursamsalan hafa alla tíð starfað náið saman að framleiðslu- og markaðsmálum mjólkur. Félögin eru sjálfstæð en eignarhaldi og samstarfi er þannig háttað að þau hafa í raun stöðu fyrirtækjasamstæðu. Í eigendahópi eru mikið til sömu aðilar.

Í fréttatilkynningu frá fulltrúaráðum MBF og MS kemur fram að á vegum stjórna MBF og MS hefur átt sér stað víðtæk umræða um framtíðarsýn og sameiginlega hagsmuni eigenda félaganna í framhaldi af samþykktum fulltrúaráða þeirra síðastliðið vor. Niðurstaðan er sú að ná megi fram hagræðingu með samruna MBF og MS til hagsbóta bæði fyrir mjólkurframleiðendur og neytendur. Sameinað fyrirtæki muni hafa meiri burði til þess að mæta vaxandi samkeppni.

Með áformum um samruna MBF og MS er haldið áfram á braut hagræðingar í íslenskum mjólkuriðnaði sem meðal annars hefur skilað þeim ávinningi, að verð á mjólk og mjólkurafurðum til neytenda hefur haldist óbreytt frá árinu 2002 segir í tilkynningunni.

Innleggjandasvæði MS nær yfir Vestur- og Norð-Vesturland. Innleggjendur mjólkur á svæðinu voru 227 um síðustu áramót. Starfsmenn voru 202. Innleggjendasvæði MBF er Suður- og Austurland að Hellisheiði eystri. Innleggjendur mjólkur á svæðinu voru 366 um síðustu áramót. Starfsmenn voru 144.

Stjórnarformenn félaganna kynntu samykktir fulltrúarráða þeirra fyrir stjórnendum, millistjórnendum og deildarstjórum MBF og MS í morgun, og mjólkurframleiðendum var tilkynnt um þær með bréfi, dagsettu í gærdag.