Undir lok síðasta sumars hófst smíði á íslenska ofurjeppanum ÍSAR TorVeg. Jeppinn er hugsaður fyrir björgunarsveitir, ferðaþjónustu, sem og fjársterka einstaklinga. Megnið af burðarvirki bílsins var sýnt á Nýsköpunarmóti Álklasans í síðustu viku. Ari Arnórsson er stofnandi ÍSAR.

Hann hefur unnið að þessu verkefni í meira en áratug en á síðasta ári komst skriður á það. Var það ekki síst vegna styrks sem fyrirtækið fékk frá Tækniþróunarsjóði. Fyrir nokkrum mánuðum ákvað síðan Garðar K. Vilhjálmsson, lögmaður og eigandi bílaleigunnar Geysis, að koma inn í verkefnið, sem fjárfestir. „Það hefur mikla þýðingu fyrir okkur,“ segir Ari. „Hans innkoma þýðir að við sem stöndum í þessu getum nú einbeitt okkur af fullum krafti að verkefninu sjálfu, sem er mikils virði.“

Ari segir að ákveðið hafi verið að sýna burðarvirkið til þess að veita fólki innsýn í það hvernig smíða megi nýja bíla frá grunni úr áli á Íslandi. „Stál er notað í fjöðrunarstykki og þar sem það á við en stærsti efnisþátturinn í smíði jeppans er ál,“ segir Ari. „Bíllinn flokkast undir það að vera úr áli því öll yfirbyggingin og burðarvirkið er úr áli.“

Ryðgar ekki

Ari segir að kostir álsins séu miklir. „Það er léttara en stál og ryðgar alls ekki,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Orku og iðnaði, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.