*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 16. maí 2020 19:01

Íslenskur rafmyntamarkaður í loftið

Myntkaup opnuðu á dögunum nýjan skiptimarkað með rafmyntir, eftir að hafa fengið skráningu hjá Fjármálaeftirliti SÍ.

Sveinn Ólafur Melsted
Félagarnir Albert Guðlaugsson, Torfi Karl Ólafsson, Kjartan Ragnars, Patrekur Maron Magnússon og Tómas Óli Garðarsson eru á meðal hluthafa Myntkaupa.
Gígja Einarsdóttir

Nú í upphafi vikunnar opnaði fyrirtækið Myntkaup nýjan skiptimarkað með rafmyntir, í kjölfar þess að hafa fengið skráningu sem þjónustuveitendur viðskipta milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í byrjun árs hefur fyrirtækið unnið hörðum höndum að því að fá skráninguna í gegn frá því á síðasta ári og var hún loks endanlega í höfn í lok apríl.

Patrekur Maron Magnússon, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Myntkaupa, segir að landsmenn geti því nú keypt og selt Bitcoin með einföldum hætti inni á heimsíðunni myntkaup.is. Þegar Viðskiptablaðið náði tali af Patreki var hann önnum kafinn við að senda tölvupósta, með 10 evru inneign til Bitcoin kaupa, á þá notendur sem höfðu skráð sig á póstlista á heimsíðu fyrirtækisins, en um 500 manns skráðu sig á listann.

„Mér og öðrum stofnendum Myntkaupa fannst vanta íslenskan skiptimarkað fyrir þá sem eru að stunda viðskipti með Bitcoin. Áður þurfti fólk að stunda slík viðskipti í gegnum erlenda aðila og það ferli var flókið og tímafrekt. Við viljum gera þessi rafmyntaviðskipti eins einföld og mögulegt er, fyrir reynda sem og óreynda aðila sem eru að stíga sín fyrstu skref á markaðnum. Síðan okkar býður fólki upp á einfalda leið til að stunda viðskipti með Bitcoin og aðrar rafmyntir. Þeir sem hafa áhuga á að hefja rafmyntaviðskipti geta skráð sig inn á síðuna okkar með rafrænum skilríkjum og í kjölfarið tekur við einfalt viðmót þar sem fólk getur lagt inn fjármuni," segir hann.

Í loftið degi fyrir helmingunardag

Að sögn Patreks hefur þó nokkur fjöldi fólks skráð sig inn á rafmyntaskiptimarkaðinn og til marks um það höfðu notendur keypt sér Bitcoin fyrir um 2 milljónir króna um hádegisbil á opnunardeginum.

„Ég tel mikilvægt að Íslendingar taki þátt í þeirri framþróun sem er að eiga sér stað í heiminum með tilkomu rafmynta og bálkakeðja. Nú þegar seðlabankar heimsins keppast við að prenta peninga og koma stýrivöxtum sem næst núlli, eða jafnvel undir það, hefur aldrei verið jafn mikilvægt að hafa aðgang að gjaldmiðli líkt og Bitcoin. Fólk getur geymt fjármuni í formi Bitcoin án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að framboðið á gefnum gjaldmiðli margfaldist og rýri þar með verðgildi hans.

Ég tel auk þess mikilvægt fyrir allan heiminn að hafa aðgang að gjaldmiðli sem er ekki stýrt af neinu miðstýrðu valdi. Það er enginn seðlabanki sem stýrir því magni af Bitcoin sem er í umferð, heldur er magnið fast. Margir líta því á þennan gjaldmiðil sem ákveðna áhættuvörn (e. hedge) gegn fjármálakerfinu."

Degi eftir að Myntkaup settu rafmyntaskiptimarkað sinn í loftið átti svokölluð Bitcoin helmingun sér stað í þriðja sinn. „Undir venjulegum kringumstæðum gerir áhugafólk um Bitcoin sér glaðan dag á helmingunardeginum en í ljósi kórónuveirufaraldursins var væntanlega lítið um fagnaðarhöld," segir Patrekur.

Í aðsendri grein, sem birtist í Viðskiptablaðinu í síðustu viku, útskýrir Kristján Ingi Mikaelsson, framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs Íslands, sem er auk þess ráðgjafi stjórnar Myntkaupa, hvað felist í umræddri helmingun. Í greininni segir að á fjögurra ára fresti dragi Bitcoin úr nýútgáfu um helming. Þannig auki Bitcoin taumhald eigin peningastefnu sem skilgreind hafi verið árið 2008.

„Í heildina verða einungis 21 milljónir eintaka til af rafmyntinni og í dag hafa 18,4 milljónir verið gefin út. Einungis á því eftir að gefa út 2,6 milljónir á næstu 120 árum. Ný útgáfa mun minnka úr 656.250 eintökum niður í 328.125 á ársgrundvelli. Þetta þýðir í raun að ný útgáfa, eða verðbólga (til einföldunar) fer undir tvö prósent næstu fjögur árin og verður því sambærileg bæði stærstu hagkerfum heimsins og gulli," segir m.a. í grein Kristjáns Inga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Bitcoin Myntkaup.