Viðvarandi vangaveltur og getgátur um að FL Group muni selja um fjórðungshlut sinn í norræna drykkjarvöruframleiðendanum Royal Unibrew hafa væntanlega átt sinn þátt í því að halda verði hlutabréfa félagsins niðri og stjórnendur Royal Unibrew virðast vera orðnir þreyttir á þessari óvissu og vilja gjarna fá skýrari yfirlýsingar af hálfu FL Group, að því er kemur fram í frétt danska viðskiptablaðsins Børsen.

Væntingar FL Group um að komast til áhrifa innan félagsins hafa engan veginn gengið eftir, þrátt fyrir stóran eignarhlut, þar sem Danirnar hafa ekki viljað breyta reglum um hámarksatkvæðamagn á einn einstakan hluthafa þótt FL Group hafi óskað eftir því.

Þá hafa væntingar FL Group um að Royal Unibrew yrði virkur þátttakandi í samþjöppun á öl- og gosdrykkjamarkaðnum ekki gengið eftir.

Vilja losna við grunsemdir

„Þetta er ekki sú staða sem er líkleg til að ýta gengi bréfa félagsins upp. Það er þess vegna alveg ljóst að hinir hluthafarnir gætu vel hugsað sér að heyra það frá þeim [FL Group] að félagið ætli sér að halda hlutnum þannig að ekki séu grunsemdir um að þeir séu alltaf á leiðinni út,“ segir Steen Weirsø, stjórnarformaður Royal Unibrew.

Þótt ekki komi það fram í greininni hefur gengi Royal Unibrew raunar hækkað um 17% frá áramótum og um 33% frá því sem það fór lægst í lok janúar, og umreiknað í íslenskar krónur er hækkunin auðvitað miklum mun meiri.

Børsen fjallaði í heilsíðuúttekt í gær um afskráningu FL Group og stöðu nokkurra félaga sem FL Group á í, eins og Sterling í gegnum Northern Travel Holding og Landic Property sem skotið var inn í FL Group í lok síðasta árs.

Og fyrirsögnin var auðvitað í klassískum dönskum stíl: „Íslenskur risi berst fyrir lífi sínu“.