Mánudaginn 26.júní kemur út í App Store og Google Play fjórði leikurinn úr smiðju íslenska tölvuleikjaframleiðandans Rosamosa. Leikurinn nefnist Mussila Planets og er jafnframt sá fjórði í Mussila leikjaseríunni en Mussila er ævintýraeyja þar sem íbúarnir eru músíkölsk skrímsli af ýmsum stærðum og gerðum sem halda uppi taktinum meðan spilararnir leysa þrautir sem gera þeim meðal annars kleift að þekkja nótur, takt, hljóðfæri og þjálfa tóneyrað gegnum skapandi leik að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Í Mussila Planets ferðast spilarinn um framandi plánetur - allt frá stjörnuskreyttum himingeimi niður í forvitnileg undirdjúpin. Á leið sinni tekst spilarinn á við tónlistarlegar áskoranir af ýmsu tagi, nælir í nótur og spilar laglínur, forðast slæmar nótur, safnar stigum og keppist við að komast í efsta sæti með aðstoð frá svífandi bleikum höfrungum og píranafiskum svo fátt eitt sé nefnt.

Fyrirtækið Rosamosi var stofnað árið 2015 af tónlistarkonunni Margréti Júlíönu Sigurðardóttur og tölvuverkfræðingnum Hilmari Þór Birgissyni með það að markmiði að þróa tölvuleiki fyrir börn þar sem leikjamódelið, ævintýri og skapandi leikur yrðu nýtt til þess að kenna börnum grunnatriði í tónlist á aðgengilegan og skemmtilegan hátt. Í dag starfa fimm manns daglega hjá fyrirtækinu en auk Margrétar og Hilmars samanstendur teymið af Kristu Hall, grafískum hönnuði og teiknara, Kitty Von-Sometime, framleiðanda og listakonu og Ægi Erni Ingvasyni forritara og hreyfimyndahönnuði. Rosamosi stefnir að því að efla starfsemi sína og á nú í viðræðum við innlenda og alþjóðlega fjárfesta um aðkomu að fyrirtækinu.

„Fyrsti leikurinn frá Rosamosa, Mussila - Musical Monster Adventure, kom út á alþjóðavísu í júní í fyrra og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda en yfir 25 erlendar umfjallanir hafa birst um leikinn og ber þar hæst að nefna fimm stjörnu dóm í hinu virta BBC Music Magazine. Mussila - Musical Monster Adventure hefur verið notaður í tónlistarkennslu í öllum grunnskólum Garðabæjar og þremur skólum í Eistlandi þar sem nýverið fór fram rannsókn styrkt af Nord Plus Horizontal en úr henni mátti sjá mælanlegan árangur hjá nemendum sem nýttu leikinn í tónlistarkennslu. Ítarlegar niðurstöður rannsóknar verða birtar í haust. Í kjölfar Mussila – Musical Monster Adventure sigldu leikirnir Mussila DJ og Mussila DJ Christmas þar sem áhersla var lögð á sköpunargleði spilarans sem fór í hlutverk Mussila plötusnúðs og gat búið til vínylplötur, tekið upp sína eigin rödd og blandað við skemmtilega Mussila skrímslatóna.“ segir að lokum í fréttatilkynningunni.