Tölvuleikurinn Maximus Musicus, sem framleiddur er af íslenska hugbúnaðarhúsinu Fancy Pants Global, hefur verið tilnefndur sem besti norræni barnaleikurinn á Nordic Game tölvuleikjaráðstefnunni. Verðlaunin verða veitt 11. maí næstkomandi. Leikurinn er gerður fyrir iPhone, iPad, og iPod Touch og kostar 0,99 dali íiTunes- verslunum. Honum er ætlað að kynna klassíska tónlist fyrir börnum eldri en fjögurra ára, meðal annars með ýmiskonar þrautum.

Aðalpersónan, músin Maximus Musicus, er fengin úr barnabók eftir Hallfríði Ólafsdóttur sem Þórarinn Már Baldursson myndskreytti. Þau eru bæði í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fancy Pants Global hefur verið starfandi frá árinu 2009. Fyrirtækið hefur notið styrkja frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.