Tónlistarleikurinn Mussila, ætlaður börnum er kominn út á App Store á Íslandi, en hann verður síðan gefinn út á heimsvísu þann 14. júní. Fyrirtækið Rosamosi ehf. gefur leikinn út en hann er ætlaður börnum á aldrinum 6-11 ára til að byggja upp færni í tónlist og nótnalestri á skemmtilegan hátt.

Ævintýralegur tónlistarleikur

Í leiknum ferðast spilarinn yfir glóandi hraunfljót og jökulár, þar sem hann aðstoðar meðlimi Mussila hljómsveitarinnar við að finna aftur hljóðfærin sín og búninga sem þau týndu á tónleikaferðalagi. Koma upp fjölbreyttar tónlistaráskoranir sem spilarinn þarf að taka þátt í þar sem barnið getur fengist við tónlist á skapandi hátt, útsett hana að eigin vild, spilað in eigin laglínur, stillt upp senum og valið búninga á bandið.

Í verðlaun fyrir hverja unna áskorun eru svo ný hljóðfæri og búningar sem nýtast áfram í hljómsveitarsamspili með meðlimum Mussila hljómsveitarinnar, þeim Millí, Tinníló, Mikkitak og Túpok og er ætlunin að áskoranir og spilagleði tvinnist saman í þessum ævintýralega tölvuleik við sköpun og leikgleði.