Íslenski vogunarsjóðurinn Boreas Capital á 6% hlut í kanadíska olíu- og jarðgasframleiðandanum Tanganyika Oil Company, en kínverski olíurisinn SIPC hefur gert yfirtökutilboð í Tanganyika.

Frank Pitt, framkvæmdastjóri Boreas, segir félagið leysa inn ágætan söluhagnað af hlutnum í olíuframleiðandum. Boreas hefur að sögn Franks byggt upp eign sína í Tanganyika síðastliðið ár en hann gat ekki greint frá meðalkaupverði hlutanna í fyrirtækinu.

Yfirtökutilboð SIPC á Tanganyika er talsvert yfir núverandi markaðsvirði og nemur 31.50 kanadískum dollurum á hlut. Miðað við það verð er markaðsvirði fyrirtækisins ríflega tveir milljarðar kanadískra dollara. Boreas selur því sinn hlut á ríflega 123 milljónir, eða sem nemur 11,1 milljarði króna miðað við gengi krónunnar í gær gagnvart kanadíska dollaranum.

Gengi Tanganyika hafði hæst farið í 26 kanadíska dollara á hlut á þessu ári en við tíðindin af yfirtökutilboðinu í gær snarhækkuðu bréf í félaginu um tæp 21%.

Stjórn Tanganyika hefur mælt með því við hluthafa sína að taka yfirtökutilboði SIPC þar sem um talsverða premíu sé að ræða í yfirtökuverðinu. Stjórnendur ásamt ákveðnum hópi hluthafa hafa skuldbundið sig til að selja sinn hlut til SIPC, alls 16,2%.

Reikna má með að yfirtakan gangi í gegn, nema yfirvöld í Kína hafi einhverjar athugasemdir, en þau hafa mikil ítök í SIPC. Þess má geta að Lehman Brothers Asia veitti kínverska fyrirtækinu ráðgjöf við yfirtökuna.

______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .