Danska blaðið Børsen fer mikinn í umfjöllun um íslenska fjárfesta í dag og örlög Nyhedsavisen.

Blaðið leggur þannig forsíðuna og tvær opnur undir þessi mál.

Í grein undir fyrirsögninni „Íslenska viðskiptalíkanið að hrunið komið“ segir að styrkur og veikleikar íslenska viðskiptalíkansins felist í sterkum tengslum þess þar sem bankar og fyrirtæki standi þétt saman.

Gangi fyrirtækjunum og fjárfestum illa séu það bankarnir sem sitji uppi með sárt ennið. Haft er eftir Paul Rawkins frá Fitch Ratings að íslensku bankarnir séu undir pressu vegna mikillar endurfjármögnunarþarfar á næsta ári.

„Því lengur sem lausafjárkreppan stendur þeim mun erfiðara verður þetta fyrir bankana. Þeir eru í erfiðri stöðu,“ segir Rawkins við Børsen.

Þá hefur blaðið eftir Steen Thomsen, prófessor í alþjóðahagfræði og stjórnun að ef einn íslenskur banki fari á hliðina sé líklegt að það verði keðjuverkun, aðrir bankar fari einnig sömu leið og þá um leið fyrirtækin sem bankarnir hafa fjármagnað.

„Íslensku fjárfestarnir eru í mjög, mjög erfiðum málum vegna þess hve skuldsettir þeir eru. Það er þó íslenska viðskiptalíkanið sem umfram allt á undir högg að sækja,“ segir fréttinni en þar er vísað til ummæla sem Lars Christiansen hjá Danske Bank hefur látið falla.

Michael West hlutabréfagreinandi hjá Hybholt segir á hinn bóginn við Børsen en menn ýki og skekki myndina af íslenskum fjárfestum og ekki sé rétt að taka þá sérstaklega fyrir; það sé fjöldi annarra fjárfesta sem farið hafi í skuldsett viðskipti.

„Það ber bara meira á Íslendingunum í fjárfestingum þeirra,“ segir West.