*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 15. júní 2021 07:14

Íslög fengið tæpan kvartmilljarð

Lögmannsstofan Íslög hefur fengið umtalsverðar fjárhæðir frá Lindarhvoli, Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu.

Jóhann Óli Eiðsson
Ekki hefur fengist upplýst hve mikið Eignasafn Seðlabanka Íslands hefur greitt Íslögum.
Haraldur Guðjónsson

Lindarhvoll lauk formlega starfsemi árið 2018 og hefur síðan þá verið stefnt að því að slíta félaginu. Það hefur enn ekki verið gert þar sem Alþingi hefur ekki lokið umfjöllun sinni um skýrslu Ríkisendurskoðunar um félagið. Áður hefur verið fjallað um kostnaðinn sem Lindarhvoll greiddi Íslögum fyrir störf sín en þrátt fyrir að félagið hafi lokið hlutverki sínu virðist stofan enn sinna umfangsmiklum störfum fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið (FJR) og Seðlabankann.

Samkvæmt ársreikningum Lindarhvols námu greiðslur til Íslaga árin 2016-18 samanlagt tæplega 120 milljónum króna. Á sama tímabili greiddi Seðlabankinn stofunni tæplega 17 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum af vefnum opnirreikningar.is hefur FJR greitt Íslögum tæplega 55 milljónir króna frá miðju ári 2018.

Sé það borið saman við aðrar lögmannsstofur, sem fengið hafa greitt frá FJR á sama tímabili, má sjá að Íslög hafa þar nokkra sérstöðu. Næst á eftir stofunni fylgir Juris, með rúmlega 20 milljónir króna, þar á eftir Landslög með rúmar sjö milljónir, Lex hefur fengið rúmar fimm milljónir, BBA Legal þrjár og aðrir minna.

Við þetta bætast greiðslur frá Seðlabankanum árin 2019-21 en þær eru, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins, ríflega 46 milljónir króna. Alls hefur stofan því fengið greiddar um 237 milljónir króna frá hinu opinbera síðastliðin sex ár. Rétt er að geta þess að mögulegt er að sú tala sé hærri þar sem inni í henni eru ekki greiðslur sem varða Eignasafn Seðlabanka Íslands.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Íslög Lindarhvoll