Internet á Íslandi, ISNIC, var fyrst íslenskra hlutafélaga til þess að skila inn ársreikningi fyrir árið 2011 til ársreikningaskrár. Félagið sér um skráningu léna og rekstur á nafnaþjónustu fyrir .is lén. Reikningnum var skilað inn síðastliðinn mánudag, 23. janúar.

Árið í fyrra var metár hjá ISNIC. Velta nam 245 milljónum króna og hagnaður var 55 milljónir. Á aðalfundi var samþykkt að greiða 30 milljóna arð til eigenda en hann hefur ekki verið greiddur síðastliðin fimm ár.

Jens Pétur Jensen, stærsti eigandi ISNIC með 30% hlut, segir í skeyti til Viðskiptablaðsins að með rekstrarárinu 2011 sé kreppan kvött hvað ISNIC varðar. Aðrir stórir eigendur ISNIC eru Íslandspóstur (19%), Magnús Soffaníasson (17%) og Bárður Hreinn Tryggvason (16%). Hluthafar eru alls 26 talsins.