Hagnaður Internet á Íslandi hf. (ISNIC), sem sér um rekstur .is lénakerfisins, nam 91 milljón króna í fyrra og dróst saman um 13% milli ára.

Tekjur námu 352 milljónum króna og jukust um 8%. Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 144 milljónum króna og EBITDA-hlutfallið var því 41%.

Lögð er til 70 milljóna króna arðgreiðsla á þessu ári eftir 190 milljóna arðgreiðslu á árinu 2020. Jens Pétur Jensen er framkvæmdastjóri og stærsti hluthafi félagsins með 30% hlut. Þá á Pósturinn 19% hlut.