ISNIC, umsjónaraðili lénsskráninga landslénsins .is, telja óþarft að sett séu heildarlög um landslénið. Auðvelt sé að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt með öðrum hætti en lagasetningu. Þetta kemur fram í umsögn ISNIC um fyrirhugaða lagasetningu í Samráðsgáttinni.

Í áformsskjali stjórnvalda kemur fram að orðsins léns sé hvergi getið í íslenskum lögum og að víða í nágrannalöndum okkar hafi sambærileg lög verið sett um landslénið. Þetta segir ISNIC vera rangt og bendir á að orðið lén megi finna í einum lagabálki.

„ISNIC bendir góðfúslega á að fullyrðingar um að sambærilega löggjöf um landshöfuðlén sé víðast hvar að finna eru rangar. Rétt er að lög um landshöfuðlén hafa verið sett í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Engin slík lög er að finna um landshöfuðlén annars staðar á Norðurlöndum, né heldur um langstærstu landshöfuðlén Evrópu, .de í Þýskalandi og .uk í Bretlandi, svo dæmi séu tekin. Samtals stýra lénaskráningarfyrirtæki þeirra léna (DENIC e.G. og Nominet Ltd.) yfir 25.000.000 léna, eða yfir 70% af öllum lénum skráðum undir landshöfuðlénum í Evrópu,“ segir í umsögninni.

Verði það niðurstaða stjórnvalda að halda ótrauð áfram leggur ISNIC áherslu á að frumvarpið verði ekki íþyngjandi sem gæti haft þau áhrif að samkeppnishæfni .is lénsins hljóti skaða af. Markaðshlutdeild þess hér á landi fari minnkandi og sé nú undir 50%.

„Að lokum bendir ISNIC á að internetið, þ. á m. lénaheitakerfið, er í sífelldri þróun sem ómögulegt er að sjá fyrir. Afar mikilvægt er að lög og reglur á sviði internetsins standi eðlilegri þróun þjónustunnar ekki í vegi. Því er lykilatriði, verði áformin að veruleika, að lög um landshöfuðlénið .is, verði almenns eðlis, en innihaldi ekki sértækar kvaðir sem takmarka myndu nauðsynlegt svigrúm ISNIC svo landshöfuðlénið .is geti þróast og tekið breytingum með eðlilegum hætti í síaukinni samkeppni um notendur internetsins,“ segir ISNIC.