Markaðshlutdeild landshöfuðlénsins „.is“ var 47% á Íslandi í upphafi ársins á móti samanlagðri hlutdeild hinna almennu höfuðléna, eins og .net, .org, .info og .com, sem er stærst þeirra. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Centr.org, samtaka lénastjórnenda í Evrópu og víðar, sem greint er frá á vef Isnic .

Þar kemur fram að í upphafi ársins hafi fjöldi skráðra .is léna verið 53.530 en 58.489 almenn höfuðlén voru skráð á aðila til heimils á Íslandi á sama tíma. Um 25% allra .is léna eru skráð á rétthafa sem búsettir eru utan Íslands. Sé tekið tillit til þess er markaðshlutdeild Isnic 40%.

Nýlegt höfuðlén Evrópusambandsins, .eu, sem Íslendingum stendur til boða að skrá undir, telur einungis um 309 lén hér á landi. Isnic hefur verið boðið að þjónusta og selja .eu-lénið í samstarfi við Eurid, en ekki talið það svara kostnaði.